*

mánudagur, 25. október 2021
Erlent 27. september 2021 13:04

Sektað um 245 milljónir fyrir tafir

United Airlines hefur verið sektað fyrir 25 atvik þar sem farþegum var haldið um borð í meira en 3 klukkustundir á stæðum flugvalla.

Ritstjórn

Samgönguráðuneyti Bandaríkjanna hefur sektað United Airlines um 1,9 milljónir dala, eða sem nemur 244 milljónum króna, fyrir að halda farþegum of lengi um borð. Um er að ræða stærstu sekt af sinni tegund, að því er kemur fram í frétt Washington Post.

Samgönguráðuneytið benti á tuttugu innanlandsflug þar sem farþegum var haldið lengur en þrjár klukkustundir um borð í stæðum flugvalla og fimm alþjóðleg flug þar sem tafirnar námu fjórum klukkustundum í það minnsta. Alls voru 3.218 farþegar um borðs í flugunum.

Atvikin ná sum hver fimm ár aftur í tímann og meirihluti þeirra átti sér stað í illviðri, samkvæmt talsmanni United. Af þessum 25 atvikum, voru fimm flug á sama degi árið 2019, þegar United þurfti að beina áætlunarflugum frá upphaflega áfangastaðnum Chicago til Madison borgar í Wiconsin fylki þegar stórhríð brast á í fyrrnefndu borginni.

United og Samgönguráðuneytið náðu sáttum um 1,9 milljóna dala sekt en þar af fá farþegar 750 þúsund dali í bætur. Flugfélagið fékk 750 þúsund dala sekt fyrir sambærileg brot á reglum árið 2016.

Stikkorð: United Airlines United