Horfur í efnahagsmálum eru verri og efnahagsbatinn verður hægari en Seðlabankinn hafði áður gert ráð fyrir. Þetta kom m.a. fram á kynningarfundi Seðlabankans sem haldin var fyrir hádegið í tilefni af ákvörðun peningastefnunefndar um stýrivexti sem verða óbreyttir í 12%. Bankinn segir að forsendur fyrir tilslökun á peningalegu aðhaldi sé að krónan styrkist. Þar hafa horfur hins vegar versnað og krónan hefur haldið áfram að lækka.

Á fundinum kom líka fram að dregist getur að draga úr gjaldeyrishöftum ef ekki næst að ganga frá Icesave-málinu. Ástæðan sé að aðstoð erlendra ríkja skilar sér ekki og þar með sé ekki hægt að byggja upp nægilega öflugan gjaldeyrisvarasjóð.

Samkvæmt nýjustu tölum Seðlabankans mun draga hægar úr verðbólgu en búist var við og að hún nái að meðaltali ekki verðbólgumarkmiðum á spátímabilinu fram á mitt ár 1012. Þá segja forsvarsmenn bankans að lágt gengi krónunnar tefji fyrir hjöðnun verðbólgu.

Þrátt fyrir verulegan afgang á utanríkisviðskiptum er svo gert ráð fyrir að viðskiptahalli verði á árinu sem nemi liðlega 7% af landsframleiðslu. Það er þó veruleg lækkun frá síðasta ári þegar hallinn var 43% af landsframleiðslu. Hins vegar gerir Seðlabankinn ráð fyrir að viðskiptajöfnuður verði jákvæður á næsta ári.