Í greinargerð sinni til ríkisstjórnarinnar lýsir Seðlabankinn yfir áhyggjum af útlánum til einstaklinga. Hann segir að útlán til einstaklinga hafi stóraukist og að íbúðaverð hafi hækkað hraðar en nokkurn tíma áður. Þessi hækkun hafi síðan skýrt að mestu leyti hækkun vísitölu neysluverðs frá maí til ágúst á þessu ári. Telur Seðlabankinn æskilegt að staða Íbúðalánasjóðs skýrist sem fyrst þar sem óhóflega aukningu útlána undanfarið ár megi að talsverðu leyti rekja til breytinga á markaði fyrir fasteignaveðlán.

Félagsmálaráðuneytið og Íbúðalánasjóður skipuðu hóp í lok ágúst sem á einmitt að fara yfir stöðu Íbúðalánasjóðs við núverandi markaðsaðstæður. Starfshópurinn á að skila af sér efnislegum tillögum fyrir lok október. "Áhugavert verður að sjá hvort tillögur nefndarinnar leysi þann vanda sem Seðlabankinn bendir á," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.