Seðlabanki Íslands vill ekki tjá sig um söluna á tryggingarfélaginu Sjóvá að öðru leyti en að félagið er í söluferli.

Heiðar Már Guðjónsson fer fyrir hópi fjárfesta í kaupum á tryggingarfélaginu. Heiðar Már hefur sagt að undirskrift Más Guðmundssonar seðlabankastjóra sé það sem þurfi til að ljúka sölunni.

Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 síðastlliðinn sunnudag sagði Heiðar Már að hann vonaðist til að söluferli myndi ljúka á næstu 2 til 3 dögum.

Seðlabankinn á 73% í Sjóvá

Sjóvá er í meirihlutaeigu Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ) en ESÍ átti handveð í öllum hlutum SA Trygginga, félags sem stofnað var utan um tryggingarekstru Sjóvá vorið 2009 eftir að gamla Sjóvá varð ógjaldfært.

Hlutur ESÍ í Sjóvá er um 73%. Aðrir hluthafar Sjóvár eru Íslandsbanki með 9,3% hlut og SAT eignarhaldsfélag með 17,67% hlut.

Félaginu voru lagðir til sextán milljarðar króna svo það uppfyllti reglur um lágmarksgjaldþol og þar af lagði íslenska ríkið því til 11,6 milljarða króna. Þær kröfur voru síðan fluttar yfir í ESÍ í desember í fyrra. Framlag hins opinbera var bundið tveimur skilyrðum: Annað hvort fengist það greitt fyrir árslok 2010 eða þegar Sjóvá yrði selt.