Þátttaka starfsmanna söluráðgjafanna sem að Íslandsbankaútboðinu stóðu er í besta falli óeðlileg, jafnvel á hreinum faglegum forsendum, og til þess fallin að skapa hagsmunaárekstra. Þetta eru viðmælendur Viðskiptablaðsins sem til þekkja á einu máli um.

Hart deilt um faglegu atriðin
Sala Bankasýslunnar á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka í lokuðu útboði í síðasta mánuði hefur dregið dilk á eftir sér og verið undir smásjá fjölmiðla og stjórnmálamanna. Mikil umræða og deildar meiningar hafa verið um hversu vel til hafi tekist faglega og hver beri ábyrgð sé svarið neikvætt.

Í samtölum blaðamanns við sérfræðinga á fjármálamarkaði standa þrír þættir helst upp úr í faglegri gagnrýni á ferlið, þótt þeir telji það heilt yfir hafa heppnast þokkalega faglega séð.

Reglur um þátttöku miðlara endurskoðaðar
Fyrst ber að nefna þátttöku söluaðila. Til viðbótar við þá þrjá fruminnherja sem tilkynnt var strax kvöldið eftir útboðið um að hefðu tekið þátt fyrir hátt í 100 milljónir króna sín á milli, má finna nöfn að minnsta kosti tveggja starfsmanna Verðbréfamiðlunar Íslandsbanka á lista yfir þátttakendur sem fjármálaráðuneytið birti í síðustu viku.

Til þess fengu þeir heimild regluvörslu bankans og lögðu fram tilboð í upphafi tímabilsins. Íslandsbanki var umsjónaraðili útboðsins og tók þátt í söfnun tilboða. Það sem eftir lifði kvölds höfðu þeir svo það hlutverk að safna sem flestum og hæstum tilboðum í sem mest magn, í beinni samkeppni við sín eigin.

Í skriflegu svari bankans við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um málið segir að umsjón með tilboðsbók hafi ekki verið hjá verðbréfamiðlun hans – fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka sá um  auk þess sem bankinn hafi aðeins verið einn af átta söluaðilum útboðsins.

„Hlutverk viðkomandi starfsmanna Verðbréfamiðlunar í útboðinu fólst í að beina tilboðum hæfra fjárfesta á tilgreint netfang útboðsins sem starfsmenn Verðbréfamiðlunar höfðu ekki aðgang að,“ segir enn fremur í svarinu.

„Reglum sem gilda um þátttöku starfsmanna er ætlað að veita starfsmönnum möguleika á að verða hluthafar í bankanum en með þrengri skorðum en gilda um aðra, s.s. um lágmarkseignarhaldstíma o.fl. Starfsfólki var heimilað að taka þátt í aðdraganda frumskráningar bankans sl. sumar með sambærilegum takmörkunum og nú en þessar reglur verða rýndar í framhaldinu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu . Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .