*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 26. nóvember 2019 10:47

Selja 10 báta Össurar til Grikklands

Rafnar, bátasmiðja Össurar Kristinssonar, semja um smíði báta fyrir grísku landhelgisgæsluna. 5 milljarða þróunarvinna að baki.

Ritstjórn
Össur Kristinsson stofnandi Rafna, sem og stoðtækjaframleiðandans Össurar, með bátinn sem byggður er á einstakri hönnun hans.
Haraldur Guðjónsson

Bátasmiðja hönnuðarins Össurar Kristinssonar, stofnanda samnefnds stoðtækjaframleiðanda, hefur gert samkomulag við grísku strandgæsluna og samtök grískra skipaeigenda um smíði báta fyrir gæsluna að því er fyrirtækið greinir frá á Facebook.

Er um að ræða 10 báta af gerðinni Rafnar 1100, en eins og greint var frá í viðtali við Össur í Frjálsri verslun í október síðastliðnum eru bátarnir smíðaðir eftir einstakri hönnun Össurar sem kemur í veg fyrir kjölsog og að þeir reisi sig of mikið og höggvi aftur í öldurnar á mikilli ferð.

Er það sagt sérlega heppilegt til að hlífa bæði áhafnarmeðlimum og búnaði í erfiðum sjóum í kringum vogskorna strönd og eyjar Grikklands.

Bátarnir sem eru ætlaðir til notkunar við landamæraeftirlit og til að bæta leit- og björg í kringum landið. Nú þegar notar íslenska landhelgisgæsla báta af þessari tegund en þessir verða þeir öflugustu hingað til með vélar sem geta komið þeim í 50+ hnúta auk brynvarnar.

Fiskifréttir sögðu frá því fyrir rúmu ári að starfsfólki bátasmiðjunnar hefði verið sagt upp og ákveðið hefði verið að hætta starfsemi hér á landi, en síðan hefur komið til nýir aðilar að rekstrinum og fyrirtækið endurskipulagt.