Apple á Íslandi telur sig geta selt tvöfalt fleiri iPad á mánuði ef til væri íslensk iTunes verslun. Vonast er til að hún verði opnuð fyrr en síðar.

Sala á iPad spjaldtölvunni hefur gengið ágætlega hérlendis, að sögn Bjarna Ákasonar, framkvæmdastjóra Apple á Íslandi.

Ýmislegt þarf þó að gerast til að tæknin nái almennilegri fótfestu hérlendis. „Við áætlum að það seljist um 200 stykki á mánuði. Það eru enda margir aðilar að selja þær fyrir okkur, meðal annars símafyrirtækin. Við fórum þó ekki í það að selja iPad hérna fyrr en í sumar enda ekki komnir með opinbert söluleyfi. Þá voru margir þegar búnir að kaupa sér hana erlendis.“

Enn er þó töluvert í land við að aðlaga iPad að íslenskum neytendum. Þar skiptir mestu máli að ekki er rekin sérstök iTunes-verslun á Íslandi, en slíkar verslanir selja starfrænt efni á vefnum. Í dag þurfa íslenskir neytendur að fara krókaleiðir til þess að versla í þeim með því að skrá sig í þeim löndum þar sem leyfi fyrir slíkum búðum er til staðar.

Unnið að opnun iTunes verslunar

Bjarni segir að unnið sé að því að opna íslenska iTunes verslun á netinu. „Við erum að bíða eftir að geta það og vonandi gerist það sem fyrst. Það þarf iTunes verslun með öllum þeim hugbúnaði (e. Applications) sem fylgja þeim. Við höfum verið að ræða við bókaútgefendur, blaðaútgefendur og leikjaframleiðendur hérna heima um hvort þeir hefðu áhuga á að koma með efni inn í þá verslun þegar hún kemur hingað til lands.“

Sérblað um Tölvur og tækni fylgir nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .