Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari, segir embættið ekki falast eftir umfjöllun fjölmiðla um ákærur tengdar bankahruninu. Kemur þetta fram í svari hans við fyrirspurn á vefnum spyr.is .

Lesandi vildi spyrja sérstakan saksóknara að því hvers vegna ákærur tengdar bankahruninu birtust alltaf í fjölmiðlum en ekki ákærur um önnur brot. Sérstakur saksóknari segir það skýrast af fréttamati fjölmiðla og áhuga almennings á þessum málum.

„Fjölmiðlar óska jöfnum höndum eftir ákærum í málum sem varða bankahrunið sem og öðrum efnahagsbrotamálum en það er síðan fréttamat fjölmiðilsins sem ræður ferð í umfjölluninni.

Í þeim efnum hafa hrunmálin skorið sig úr þar sem áhugi almennings og fjölmiðla á þeim er mikill sem ræður væntanlega einhverju um fréttamatið.

Embætti sérstaks saksóknara hlutast ekki til um að ákærur séu birtar í einni eða annarri mynd í fjölmiðlum umfram það sem leiðir af lagaskyldu 156.gr. sakamálalaga.“

Í umræddri grein segir meðal annars: „Að þremur sólarhringum liðnum frá birtingu ákæru er ákæranda skylt að láta þeim sem þess óskar í té afrit af henni með þeim takmörkunum sem greindar eru í 1. mgr. 16. gr.“