Set ehf. á Selfossi, sem sérhæfir sig í fjölbreyttri starfsemi á lagnasviði, hefur verið sett í söluferli að því er kemur fram í fréttatilkynningu. KPMG er ráðgjafi stjórnar Sets ehf. og hefur umsjón með söluferlinu.

„Eigendur og stjórn Sets ehf. hafa ákveðið að setja félagið í söluferli og er stefnt að sölu félagsins á þessu ári eða því næsta. Með nýju eignarhaldi er lagður grundvöllur að því að nýta þau fjölmörgu tækifæri til vaxtar sem búa í félaginu,“ segir Bergsteinn Einarsson, forstjóri Sets ehf.

Set rekur verksmiðjur á Selfossi og í Þýskalandi, söluskrifstofu í Danmörku og vöruafgreiðslu í Reykjavík. Alls starfa um 110 manns hjá félaginu.

Set velti um 5 milljörðum króna árið 2023, sem er tæp 33% aukning frá fyrra ári. Þá voru tekjur erlendra félaga innan samsteypunnar samanlagt um 2,5 milljarðar króna árið 2023.

Set er í eigu fjölskyldu stofnandans Einars Elíassonar. Hann stofnaði Steypuiðjuna árið 1968 og Set árið 1978.

Í upphafi sérhæfði fyrirtækið sig í framleiðslu á steinsteyptum fráveiturörum og áratug síðar einangruðum stálpípum fyrir hitaveitur. Umfangsmikil og fjölbreytt starfsemi á lagnasviði er nú megin starfsemi Sets ehf. en það hefur um langt skeið verið eitt um framleiðslu á einangruðum rörum og plaströrum hér á landi. Öll framleiðsla fer fram í verksmiðjum Sets á Selfossi og í Þýskalandi.

„Uppbygging innviða er eitt meginverkefna sem Ísland stendur frammi fyrir. Við höfum verið minnt hressilega á það síðustu vikur. Set mun leika stórt hlutverk í þeirri uppbyggingu enda býr fyrirtækið yfir reynslu og þekkingu sem mun koma sér vel á komandi árum eða áratugum. Innlend röraframleiðsla getur skipt sköpum fyrir þjóðarhag og -öryggi,“ segir Bergsteinn.

„Starfsemi fyrirtækisins hefur öðru fremur einkennst af mjög virku samkeppnisumhverfi. Þær aðstæður hafa kallað á árvekni og skjót viðbrögð þar sem áhersla hefur verið lögð á hátt tæknistig, framleiðni og gæði. Mikil þekking og reynsla hefur skapast hjá fyrirtækinu og nú er Set ehf. orðið alþjóðlegt fyrirtæki, þekkt á fjarvarmasviðinu og þátttakandi í orkuskiptum í Evrópu,“ segir Bergsteinn. Viðskiptavinir Sets ehf. eru meðal annars veitur, sveitarfélög, stærstu orku- og fjarskiptafyrirtæki, verktakar og byggingariðnaðurinn.