Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastýra Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands, lætur af störfum 15. ágúst næstkomandi en hún hefur gegnt því starfi frá árinu 2009. Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar segir í samtali við VB.is að tilkynnt verði um nýjan framkvæmdastjóra á morgun.

„Það hefur verið einstakt happ fyrir Samfylkinguna að njóta krafta Sigrúnar Jónsdóttur á umbrotatímum síðustu ára. Hún hefur byggt upp trausta umgjörð um innra starf flokksins og eflt tengsl og virkni flokksfélaga um allt land. Við þökkum henni ómetanlegt starf á undanförnum árum og óskum henni alls góðs á nýjum starfsvettvangi, en treystum því að eiga hana áfram að sem þann góða félaga og hauk í horni sem við höfum reynt um langt árabil,“ segir Árni Páll í tilkynningu frá Samfylkingunni.

Sigrún Jónsdóttir hefur verið virkur félagi í Samfylkingunni  frá upphafi og gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum, var m.a. bæjarfulltrúi í Kópavogi um árabil, sat í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og í stjórn Keflavíkurflugvallar.