Síminn segist vegna viðbragða Vodafone þess efnis, ekki hafa keypt fyrirfram ákveðna niðurstöðu Ookla á hraða nettenginga sinna

Sendi fyrirtækið frá sér fréttatilkynningu um þetta vegna fréttar Viðskiptablaðsins þar sem Vodafone segir keyptar mælingar hafa augljósa annmarka. Síminn segist hins vegar treysta mælingunum enda séu þær í fullu samræmi við hans eigin gögn.

„Síminn fagnar niðurstöðum mælinga Speedtest frá Ookla sem sýna að farsímanet hans bauð upp á mestan meðalhraða á árinu 2016,“ segir í tilkynningunni.

„Það gerir til að mynda Vodafone í Rúmeníu, dótturfélag Vodafone samstæðunnar, einnig sem hampar titlinum þar í ár, sem og Vodafone á Írlandi sem var með hraðasta netið þar 2015.

Síminn áréttar, vegna viðbragða Vodafone hér á landi við frétt um viðurkenninguna, að hann keypti ekki fyrirfram ákveðna niðurstöðu af Ookla eða hafði áhrif á hana."

Greiðslan sé sanngjörn

„Í okkar eigin úttekt á 4G kerfi Símans mældist meðalhraði yfir 40 Mb/s. Síminn hefur því enga ástæðu til að ætla annað en að niðurstöður Ookla gefi góðar vísbendingar um upplifun viðskiptavina á farsímakerfi Símans,“ er haft eftir Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúa Símans í tilkynningunni.

„Viðbrögð keppinautar okkar nú virðast litast af því að niðurstaða hraðamælinganna er þeim ekki í hag.“

Gunnhildur Arna segir Símann greiða Ookla tengt þessari niðurstöðu sanngjarna upphæð fyrir að kynna hana í markaðsefni sínu, eins og fjarskiptafélög víða um heim sem og hér á landi gera – Enda sé félagið stolt af árangrinum. Símann sé staðráðinn í að halda fyrsta sætinu.

„Við stefnum á að fjölga sendum verulega á árinu svo við getum áfram boðið viðskiptavinum okkar hraðasta farsímanetið.“

Ookla leiðandi í mælingum

Hún bendir á að Síminn tók næstu kynslóð 4G senda frá Ericsson –  LTE Advanced eða 4G+, í notkun nú í nóvember. „Þeir ná yfir 200 Mb/s hraða sem við teljum að gefi okkur gott forskot á árinu 2017.“

Viðskiptavinir fjarskiptafélaga um allan heim gera daglega um níu milljónir prófana með Speedtest frá Ookla, sem er leiðandi í mælingum á internetinu.

„Síminn stýrir ekki mælingunum. Niðurstaðan ræðst því af prófunum viðskiptavina sem að mæla nethraðann sinn og Ookla greinir. Við leggjum áherslu á að við treystum niðurstöðum með Speedtest frá Ookla.“