Evrópusambandið (ESB) hefur samþykkt nýja reglugerð um lækkun á  reikiverði fyrir gagnaflutning, símtöl og SMS innan EES-svæðisins og tekur hún gildi um næstu mánaðamót. Fram kemur í tilkynningu frá Símanum að fallin sé úr gildi fyrri reglugerð. Nýja reglugerðin taki ekki gildi hér á landi fyrr en hún hefur verið samþykkt í sameiginlegu EES-nefndinni og íslensk stjórnvöld hafa innleitt hana á landsrétt.

Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu megi gera ráð fyrir að reglugerðin verði innleidd á næstu 12 mánuðum. Því er staðan sú að að engin löggjöf verði í gildi á Íslandi sem skyldar evrópsk símafélög til að bjóða Símanum lægra heildsöluverð og þar af leiðandi ekki til löggjöf sem krefur íslensk fjarskiptafyrirtæki  til þess að bjóða þau hagstæðu verð sem hafa verið í gildi á síðustu árum.

Í ljósi þessa hefur Síminn lagt sig fram um að endursemja við öll evrópsku fjarskiptafélögin sem félagið er í viðskiptum við og náð þeim árangri að yfir 90% þeirra hafa samþykkt heildsöluverð til Símans samkvæmt nýju reglugerðinni. Síminn muni því lækka reikiverð til viðskiptavina sinna sem ferðast innan Evrópu og tekur lækkunin gildi 1. júlí næstkomandi.

Mest er lækkunin í gagnaflutningi eða um 50% , móttekið símtal lækkar um tæplega 26% og hringt símtal um 17%. Þá lækkar sent SMS einnig um 17% en móttekið  SMS er viðtakanda að kostnaðarlausu.