Alls var átta milljarða velta á íslenska verðbréfamarkaðnum, þegar tekið er saman veltuna á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaðnum. Veltan nam 4,3 milljörðum króna á aðalmarkaði Kauphallarinnar en helmingur félaga hans lækkaði í viðskiptum dagsins.

Eik og Síminn leiddu lækkanir en hlutabréfaverð beggja félaga lækkuðu um 2,7%. Gengi beggja félaga hefur þó hækkað töluvert að undanförnu en Síminn náði sínu hæsta gengi frá skráningu í gær og hlutabréfaverð Eikar við lokun markaða í gær hafði sömuleiðis ekki verið hærra frá árinu 2017.

Íslandsbanki hækkaði í 450 milljóna veltu og stóð í 115 krónum við lokun Kauphallarinnar, sínu hæsta gengi frá skráningu í júní. Gengi Arion banka stóð óbreytt í 165,5 krónum á hlut í 735 milljóna veltu en Kvika banki lækkaði um 1% í 758 milljóna veltu.

Stjórnarmenn Icelandair nýta áskriftarréttindi

Bæði flugfélögin á hlutabréfamarkaðnum lækkuðu í dag. Play lækkaði um 2,1% á First North markaðnum og stendur nú í genginu 22,6 krónum á hlut. Á aðalmarkaðnum lækkaði Icelandair lítillega í 56 milljóna króna viðskiptum.

Sjá einnig: Mikil aukning farþega Icelandair í júlí

Tveir stjórnarmenn Icelandair, Svava Grönfeldt og John Thomas nýttu áskriftarréttindi í flokknum ICEAIRW13082 frá hlutabréfaútboði félagsins í september síðastliðnum. Kaupgengið í áskriftarréttindunum er 1,13 krónur, 24% undir hlutabréfaverði Icelandair í dag sem er 1,48 krónur á hlut.

Svava keypti fyrir rúma eina milljón króna í dag og á eftir viðskiptin 10,8 milljónir hluti að markaðsvirði 16,1 milljón króna. John Thomas nýtti áskriftarréttindi fyrir 256 þúsund krónur og á nú 2,9 milljónir hluti að markaðsvirði 4,4 milljónum króna. Eindagi greiðslu með áskriftarréttindin er 19. ágúst næstkomandi.