Síminn hefur undirritað samstarfssamning við umboðsaðila Orange Business Services / Equant á Íslandi varðandi endursölu Símans á lausnum og þjónustu fyrirtækisins, segir í fréttatilkynningu Símans.

Equant er dótturfyrirtæki France Telecom og hefur frá 1. júní síðastliðnum selt vörur sínar undir merkinu Orange Business Services. Með samstarfinu getur Síminn boðið viðskiptavinum sínum gagnaflutningsþjónustu um allan heim og hefur þannig útvíkkað núverandi fjarskiptanet fyrirtækisins verulega.

Vöruframboðið samanstendur meðal annars af samþættum flutningi á gögnum og tali, ásamt fjarvinnslulausnum. Að auki bjóða Orange Business Services upp á sérfræðiþekkingu, ráðgjöf og rekstur á sviði upplýsingatækni, hannað til þess að straumlínulaga ferla fyrirtækja og auka framleiðni.

Orange Business Services / Equant rekur alþjóðlegt gagnaflutningsnet sem nær til 220 landa. Hjá fyrirtækinu starfa um 29.000 manns og eru þeir staðsettir í 166 löndum. Viðskiptavinir fyrirtækisins eru 3.700 fjölþjóða fyrirtæki og hafa þeir yfir að ráða 213.000 MPLS tengingum ásamt hundruð þúsunda annarra tenginga, sem þeir veita þjónustu. Mörg þessara fyrirtækja eru með þeim stærstu í heimi eða um 2/3 af 100 stærstu fjölþjóða fyritækjum.

?Að mati Símans er samningurinn stórt skref í þá átt að auka þjónustu við viðskiptavini okkar sem starfa um allan heim og gott tækifæri til þess að komast í enn frekara samstarf við fyrirtæki sem reka alþjóðlega þjónustu á borð við Orange Business Services," segir Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans.