*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Erlent 9. janúar 2020 19:02

Sjá fram á erfitt ár á mörkuðum

Greinendur sem gerðu ráð fyrir lækkun S&P 500 á síðasta ári gera nú aðra tilraun til að spá erfiðu ári á mörkuðum.

Ritstjórn
epa

Greinendur hjá bandaríska fjárfestingafyrirtækinu Cantor Fitzgerald eru í bjarnarham í spá sinni fyrir þróun markaða á þessu ári. Fyrirtækið gerir ráð fyrir því bandaríska S&P 500 hlutabréfavísitalan muni lækka um 11% á árinu sem lægsta langlægsta spá meðal greiningaraðila samkvæmt könnun Bloomberg

Þá er einnig gert ráð fyrir því að ávöxtunarkrafa 10 ára bandarískra ríkisskuldabréfa muni lækka um 0,65 prósentustig á árinu niður í 1,25% en jafnframt er gert ráð fyrir að vaxtamunur við Evrópu og Japan muni minnka en gert er ráð fyrir því að ávöxtunarkrafa á 10 ára þýskum og japönskum ríkisskuldabréfum muni fara í 0% á árinu. 10 ára japönsk bréf eru nú þegar í kring um núllið en ávöxtunarkrafa þeirra þýsku er nú neikvæð um 0,23 prósentustig. 

Þá er jafnframt gert ráð fyrir því að olíuverð verði á bilinu 55-60 dollara, hlutabréfavísitala MSCI fyrir nýmarkaðsríki lækki um 11% en fyrirtækið telur markaðina yfirkeypta auk þess sem búist er við því að flökt á alþjóðlegum mörkuðum taki að aukast á öðrum ársfjórðungi samhliða því að ótti fjárfesta við að missa af ávöxtun minnki. 

Þess ber þó að geta að þetta er ekki í fyrsta sinn sem Cantor Fitzgerald birtir svartsýna spá. Greinendur hjá bankanum spáðu í byrjun síðasta árs að S&P 500 vísitalan myndi lækka um 5% á árinu en í staðin hækkaði vísitalan um 29%. Hafa gárungar á mörkuðum talað þannig um spá fyrirtækisins að ef spáð er falli nógu oft muni greinendur einhvern tímann hafa rétt fyrir sér.