Sjómenn eignast sína eigin sjónvarpsstöð, sem heitir Sjóvarp Símans, en síminn hefur útbúið gagnvirkt sjónvarp fyrir útgerðir landsins. Sjómenn munu með nýju sjónvarpsstöðinni hafa aðgang að tímaflakki svo þeir geta horft á efnið þegar vakt lýkur eða hvenær sem þeim hentar.

Sjóvarp Símans sýnir Sjónvarp Símans

„Sjóvarp Símans er mikil framför í afþreyingu um borð í íslenskum fiskiskipum. Þetta er í fyrsta sinn sem sjónvarpsútsending er sniðin að sjómönnum og þeirri tækni sem þeir búa við,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans í fréttatilkynningu.

Sjá sjómenn á þessari nýju sjónvarpsstöð, Sjóvarpinu, opna dagskrárglugga Sjónvarps Símans (áður SkjáEinn) og Stöðvar 2, ásamt ógrynni innlends efnis sem þeir geta sótt með Frelsi og Tímaflakki, og kemur nýtt efni inn á hverjum degi.

„Þetta er okkar fyrsta útspil en takmarkið er að geta á endanum boðið um borð það sem við bjóðum á heimilum landsins,“ segir Orri en Síminn hefur sérhæft sig í fjarskiptalausnum fyrir útgerðir landsins í gegnum dótturfélag sitt Radíómiðun.