Samkvæmt endurskoðaðri húsnæðisáætlun Skagafjarðar fyrir árið 2024 þarf að byggja þrefalt fleiri íbúðir á ári í Skagafirði en áður var talið til að halda í takt við fólksfjölgun. Á vef HMS kemur fram að þörf sé á 80 íbúðum á næstu fimm árum til að sinna fyrirhugaðri íbúaþörf.

Nýja húsnæðisáætlunin gerir jafnframt ráð fyrir að íbúar sveitarfélagsins verði tæplega 4.600 talsins árið 2028.

Frá 2021 hefur fjöldi íbúa í sveitarfélaginu aukist um 7,4% og hefur mannfjöldaaukningin verið nokkuð umfram fyrri spár. Samkvæmt miðspá um mannfjöldaþróun þá áætlar sveitarfélagið að mannfjöldi aukist um 21,9% næstu 10 árin.

Í íbúðatalningu HMS voru 32 íbúðir í byggingu í september 2023 sem var sami fjöldi og í mars sama ár. Flestar íbúðirnar voru á síðari stigum framkvæmda. Fjöldi íbúða í byggingu er hins vegar ekki í takt við áætlaða íbúðaþörf næstu ára og er þörf fyrir fjölgun.

Á árinu 2023 komu 8 fullbúnar íbúðir á markað í Skagafirði og má telja líklegt að um 12 íbúðir bætist við í ár miðað við stöðu framkvæmda í september síðastliðinn.