70 þúsund manna skattasvið ráðgjafafyrirtækisins Ernst & Young (EY) er flóknasta viðfangsefni fyrirhugaðra uppskipta félagsins í tvö aðskilin fyrirtæki, en skipta mun þurfa sviðinu milli beggja þar sem bæði ráðgjafar- og endurskoðunarþjónustan reiða sig á slíka sérfræðiþekkingu.

Yfirstjórn félagsins samþykkti ráðahaginn formlega í þarsíðustu viku eftir að fjölmiðlar komust á snoðir um áformin fyrr í sumar.

Wall Street Journal hefur eftir heimildum að flækjan vegna skattasviðsins hafi verið ein helsta ástæða þeirra tafa sem orðið hefur á framkvæmdinni. Viðmælendur Viðskiptablaðsins sem til bransans þekkja töluðu á svipuðum nóttum í umfjöllun blaðsins um málið í sumar; hægara sagt en gert yrði að aðskilja starfsemina með fyrirhuguðum hætti þar sem angar hennar tveir reiddu sig hvor á annan að þónokkru leyti.

Heilt yfir herma ónafngreindir heimildarmenn miðilsins að um fjórðungur skattastarfseminnar verði eftir hjá endurskoðunarfélaginu, en restin fari yfir í sjálfstæða ráðgjafafyrirtækið sem ætlunin er að kljúfa frá starfseminni eins og hún er uppsett í dag. Hlutfallsskiptingin er hins vegar sögð verða afar ólík milli þeirra landa sem fyrirtækjasamstæðan starfar í í dag.