Embætti Ríkisskattstjóra hefur verið í sérstöku átaki til að bæta skil fyrirtækja á launamiðum starfsmanna. Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir að eftirlitsstarfsmenn embættisins hafi heimsótt fyrirtæki sem hafa staðið sig illa að þessu leyti til að finna út hvað valdi.

„Í langflestum tilfellum er um trassaskap að ræða, en einhver tilfelli eru þó til þar sem aðrar og verri ástæður eru fyrir vanskilum,“ segir hann. Skúli Eggert segir að þegar launamiðar berast seint og illa sé ekki hægt að setja upplýsingarnar í framtöl skattgreiðenda og kallar það á handavinnu og endurreikning eftir á.