Skylark-L eldflaug Skyora í þrýstijöfnunarprófun í Slóvakíu
Skylark-L eldflaug Skyora í þrýstijöfnunarprófun í Slóvakíu
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Geimvísinda- og tækniskrifstofa Íslands (Space Iceland) og Skyrora Ltd. boða til kynningarfundar í dag, fimmtudaginn 16. janúar, klukkan 12:15-14:00 á Hótel Sögu, 2. hæð í salnum Hekla.

Fulltrúar Skyrora eru hér á landi til að skoða möguleika á skjóta eldflaugum frá Íslandi og kanna hæfni nýrra eldflauga, og líta þeir til nokkurra staða á norðanverðu landinu í því sambandi. Markmið ferðarinnar er einnig að mynda og styrkja tengsl við íslensk fyrirtæki og stofnanir sem tengjast geimiðnaðinum eða hafa sýnt áhuga á uppbyggingu hans.

Skyrora er ungt frumkvöðlafyrirtæki með höfuðstöðvar í Skotlandi sem sérhæfir sig í smíðum og skotum á sub-orbital eldflaugum fyrir gervihnetti. Þá er fyrirtækið einnig með starfsstöðvar í Englandi, Slóvakíu og Úkraínu. Skyrora var stofnað fyrir hálfu þriðja ári og starfa þar nú um 130 manns.

Owain Hughes , viðskiptastjóri hjá Skyrora, er spenntur fyrir því að kynna hugmyndir fyrirtækisins fyrir íslenskum fyrirtækjum og stjórnvöldum.

„Við höfum átt mjög gott samstarf við Space Iceland og vonumst til að geta unnið hér með fleiri áhugasömum aðilum,” segir hann en vonir standa til að ljúka þremur smærri tilraunaskotum frá Íslandi innan tólf mánaða.

Skyrora leggur mikla áherslu á umhverfismál og hlaut til að mynda bresku GO:TECH verðlaunin 2019 fyrir nýtingu og þróun á umhverfisvænni tækni (clean tech).

Robin Hague , verkfræðingur á þróunarsviði, er staddur hér landi til að fara yfir aðstæður.

„Okkar markmið er að þróa eldflaugar þar sem kolefnisfótsporið er í lágmarki. Þannig viljum við sýna ábyrgð gagnvart umhverfinu sem og komandi kynslóðum.”

Geimiðnaðurinn er sístækkandi atvinnugrein á heimsvísu og stuðlar þátttaka að aukinni samvinnu milli ríkja, og milli hins opinbera, fræðasamfélags og einkageirans. Uppbygging á sviði geimiðnaðar leiðir einnig til aukinnar þekkingar og tæknilegrar getu á öðrum sviðum. Geimiðnaður hefur almennt hvetjandi áhrif rannsóknarstarf og atvinnulíf og leiðir til hærra menntunarstigs.

Derek Harris , framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar, er jákvæður fyrir framhaldinu.

„Við viljum vekja athygli fólks á geimiðnaðinu, ekki síst unga fólksins. Það verða til sífellt fleiri störf í þessum iðnaði og það bráðvantar fleira fólk sem hefur þá menntun og þekkingu sem til þarf.”

Atli Þór Fanndal , ráðgjafi Geimvísinda- og tækniskrifstofunnar (Space Iceland), fagnar áhuga Skyrora á að fjárfesta og starfa hér á landi.

„Skyrora er öflugt fyrirtæki sem þegar hefur vakið talsverða athygli um allan heim. Fyrirtækið er tiltölulega ungt en byggir meðal annars á grunni breskrar eldflaugatækni.“

Geimvísinda- og tækniskrifstofan var stofnuð af aðilum geimvísinda- og tæknigeirans á Íslandi í fyrra. Skrifstofan er þjónustuskrifstofa við fræðasamfélag, stofnanir og fyrirtæki á Íslandi. Bakvið skrifstofuna eru um 30 lögaðilar sem allir eiga sameiginlegt að hafa aðkomu að geimvísindum og tækniþróun hér á landi.

„Það er afar ánægjulegt að starfa með Skyrora. Við höfum nýtt þessa ferð til að hitta stofnanir og fara yfir lög og reglur sem gilda um eldflaugaskot hér á landi. Staðsetning Íslands gerir landið ákjósanlegt svo koma megi gervitunglum á sporbaug.“

Árið 2016 samþykkti Alþingi að kanna möguleika á að Ísland gerist aðili að Geimvísindstofnun Evrópu.

„Við teljum það sýna vilja yfirvalda til að auka aðang íslenskra fyrirtækja, fræðasamfélags og stofnana að geimtækni.“