Skráðar gistinætur voru um 561 þúsund í febrúar samkvæmt tölum Hagstofunnar en það er 2,5% minna en á sama tíma í fyrra. Fjöldi gistinátta á hótelum var þó 372.000 sem er ögn meira en í febrúar í fyrra.

Gistinætur erlendra ferðamanna voru um 79% gistinátta, sem er 2,7% samdráttur frá því í fyrra. Þá drógust gistinætur Íslendinga einnig saman um 1,9% niður í 118.000.

Töluverð aukning varð á hótelgistingu í febrúar á Austurlandi, Suðurlandi og á Vesturlandi og Vestfjörðum. Hins vegar dróst hótelgisting saman á Suðurnesjum um 24% á meðan hótelgisting á höfuðborgarsvæðinu stóðst í stað.

Framboð hótelherbergja jókst einnig um 1,2% en á sama tíma dróst herbergjanýting á öllu landinu saman um 3,7 prósentustig.

Áætlað er að óskráðar gistinætur erlendra ferðamanna í heimagistingu hafi verið 82.000 í gegnum síður eins og Airbnb. Um 12 þúsund gistu þá hjá vinum og ættingjum á meðan þrjú þúsund gistu í húsbílum.