Actavis opnaði formlega í dag nýjar skrifstofur framkvæmdastjórnar fyrirtækisins í Zug í Sviss. Í fréttatilkynningu frá Actavis segir að nú þegar eru um 100 manns, frá 29 löndum, komin til starfa. Við lok annars ársfjórðungs sé gert ráð fyrir því að allar sex hæðir nýju höfuðstöðvanna, verði skipaðar starfsmönnum Actavis, samtals um 150 manns. Þar af séu rúmlega 20 frá Íslandi.

Í tilkynningunni segir að í máli forstjóra Actavis, Claudios Albrechts, við opnunina hafi komið fram að gera mætti ráð fyrir miklum breytingum á næstunni í framleiðslu á samheitalyfjum. Þeir sem greiddu fyrir vöruna gerðu sífellt meiri kröfur. Og því þyrfti þessi geiri að breytast umtalsvert.

Actavis þyrfti að bjóða sífellt betri lausnir og vera þannig á undan samkeppnisaðilum. Nýju slagorði fyrirtækisins „think smarter medicine“, sé ætlað að vera lýsandi fyrir þessa viðleitni. Þá sé ljóst að skilin á milli hefðbundinna lyfjaframleiðenda og samheitalyfjafyrirtækja séu sífellt að minnka. Og reikna megi með því að samheitalyfjafyrirtæki eins og þau eru í dag, verði sjaldséð eftir tíu ár.

Könnuðu fleiri borgir

Claudio Albrecht sagði samkvæmt tilkynningunni að staðsetningu Actavis í miðri Evrópu væri mjög hentunga fyrir margra hluta sakir. Sviss væri miðsvæðis, umhverfi fyrir fyrirtækjarekstur væri hentugt og gott að fá fólk með alþjóðlega reynslu til starfa þar. Fleiri staðir en Sviss hefðu einnig verið kannaðir áður en ákveðið var að setja skrifstofurnar niður í Sviss. Þar megi nefna: Kaupmannahöfn, London og Amsterdam.

Er og verður íslenskt félag

Í viðtali við Viðskiptablaðið sagði Albrechts að „Actavis er og verður íslenskt félag,“ og bætti því við að hann myndi sjálfur verja töluverðum tíma hér á landi. „Stærsti hluti rannsóknar- og þróunarvinnunnar er og verður á Íslandi. Það er líflína fyrirtækisins og við vöxum ekki nema við þróum ný lyf,“ sagði Albrechts við Viðskiptablaðið í janúar síðastliðnum.