Skuldabréfamarkaðurinn var líflegur í gær í kjölfar birtingar Hagstofunnar á tölum um landsframleiðslu á fyrsta ársfjórðungi, segir greiningardeild Glitnis.

Landsframleiðsla var nánast óbreytt á fyrsta ársfjórðungi samanborið við sama ársfjórðung árið áður.

?Af viðbrögðum á skuldabréfamarkaði má ráða að markaðurinn geri ráð fyrir lægri stýrivöxtum en áður var reiknað með. Ávöxtunarkrafa bæði verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa lækkaði í töluverðum viðskiptum. Krafa ríkisbréfa lækkaði um 2-10 punkta, mest á stysta flokknum RIKB 08 0613.

Krafa íbúðabréfa lækkaði um 1-12 punkta, mest á stysta flokknum HFF 14 eða um 12 punkta. Fjárfestar brugðust tiltölulega sterkt við fréttinni því krafa á markaði lækkaði töluvert við opnun en hluti lækkunarinnar gekk til baka þegar líða tók á daginn,? segir greiningardeildin.

Hún segir að nýjar landsframleiðslutölur höfðu einnig áhrif á gengi krónunnar. ?Strax við opnun markaða í gær veiktist hún um 1,3%. Sú veiking gekk fljótt til baka og við lokun gjaldeyrismarkaðar í gær nam veikingin aðeins 0,2%.

Það sem af er degi hefur krónan styrkst um 0,3% og er gengi krónu nú nánast það sama og var fyrir birtingu landsframleiðslutalnanna. Hins vegar draga hinar nýju tölur úr líkum á að krónan styrkist verulega á ný. Einhver hluti fjárfesta hefur undanfarið gert ráð fyrir að vextir Seðlabanka yrðu óbreyttir fram á næsta ár en það má nú telja mun ólíklegra en áður,? segir greiningardeildin.

Stýrivaxtaspá greiningardeildar er óbreytt þrátt fyrir að tölur um landsframleiðslu hafi verið lítillega undir væntingum.
?Ýmsar vísbendingar eru um að hagvöxtur muni heldur taka við sér á örðum ársfjórðungi. Í því sambandi má nefna að greiðslukortavelta hefur aukist, auk þess sem talsverð spenna er enn á vinnumarkaði og fátt sem bendir til að það breytist á næstu mánuðum.

Einnig er líklegt að samdráttur í bílainnflutningi verði ekki eins mikill það sem eftir lifir árs eins og var fyrstu mánuði ársins. Síðast en ekki síst er íbúðamarkaður enn líflegri en flestir gerðu ráð fyrir. Allt þetta bendir til að enn sé töluverður eftirspurnarþrýstingur til staðar í hagkerfinu. Við það bætist að undirliggjandi verðbólguþrýstingur er heldur meiri en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í síðustu þjóðhags- og verðbólguspá sinni,? segir greiningardeildin.