Stærstu skuldabréfasjóðir heims eru að selja stöður í bandarískum ríkisskuldabréfum og fæar sig yfir í evrópsk. Væntingar eru um að lækkandi verðbólga og lítill slagkraftur í hagkerfum evrusvæðisins leiði til þess að stýrivextir lækki þar fyrr en vestanhafs.

Financial Times fjallar um málið í dag. Þar kemur fram að skuldabréfasjóðirnir Pimco, JP Morgan Asset Management og T Row Price hafi aukið við stöðu sína í evrópskum ríkisskuldabréfum á undanförnum vikum. Þetta hefur leitt til þess að vaxtamunurinn milli þýskra og bandarískra ríkisskuldabréfa til tíu ára er nú tvö prósentustig og hefur ekki verið meiri frá því í nóvember í fyrra.

Spá þremur eða fjórum vaxtalækkunum

Blaðið hefur eftir yfirmanni skuldabréfafjárfestinga hjá JP Morgan Asset Management að engar sjáanlegar vísbendingar séu um vaxtalækkun í Bandaríkjunum. Fram kemur í frétt Financial Times að markaðurinn endurspegli væntingar um að Evrópski seðlabankinn muni lækka vexti þrisvar eða fjórum sinnum á þessu ári á meðan að einungis er búist við tveimur vaxtalækkunum hjá bandaríska seðlabankanum.