Annar hluti af tillögum ríkisstjórnarflokkanna miðar að því fólk fái að nota séreignarsparnaðargreiðslur til að greiða inn á húsnæðislán sín án þess að greiða skatt. Þessu til viðbótar verður farið í beinar niðurfellingar skulda, sem er aðgerð sem mun kosta á bilinu 80-100 milljarða samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Um þetta hefur verið deilt innan ríkisstjórnarflokkanna, þ.e. hversu langt eigi að ganga í niðurfellingum skulda.

Alls óljóst er hvaða áhrif þessar niðurfellingar munu hafa á neyslu. Þeir fjölmörgu aðilar sem Viðskiptablaðið hefur rætt við að undanförnu eru ekki sammála um hver áhrifin af skuldaniðurfærslunum myndu verða. Veltur þetta bæði á því hvernig niðurgreiðslan er útfærð og hvaða hópar það eru sem munu njóta góðs af henni. Mikil auðsáhrif af skuldaniðurfærslu munu seint koma fram hjá þeim sem eru staddir í greiðslu og skuldavanda en mun frekar hjá þeim sem betur standa. Þrátt fyrir að skuldaniðurfærslan verði ekki greidd út í peningum heldur með skuldalækkun, sem lækkar mánaðarlega greiðslubyrði skuldara, þá er ljóst að það getur haft margvísleg áhrif. Þeir sem ekki eru í greiðslu eða skuldavanda geta í kjölfarið skuldsett sig frekar, til dæmis með bílalánum, sem nemur minnkandi greiðslubyrði vegna niðurfellinga skulda. Stærsti hluti aukinnar einkaneyslu myndi væntanlega skila sér í kaupum á innfluttum vörum og varningi með tilheyrandi þrýstingi á gengi krónunnar.

Væntanlega verður reynt með einhverjum hætti að vinna gegn þessum áhrifum. Ein leið til þess er að samhliða skuldaniðurfellingum verði farið í að breyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð. Slíkt gæti þó aukið mánaðarlega greiðslubyrði skuldara meira en áður var ef skuldaniðurfellingin er ekki nægilega mikil. „Æskilegt er að nýta það tækifæri sem gefst samhliða skuldaleiðréttingu til að breyta sem flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð,“ segir í stjórnarsáttmálanum. Samkvæmt heimildum blaðsins er þetta atriði sem ekki verður lögð áhersla á í þetta skiptið. Beðið verður eftir að sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum skili af sér sínum tillögum í lok ársins áður en slíkt verður skoðað frekar.

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð .