Skuldatryggingarálag (CDS) íslensku bankanna hefur lækkað nokkuð undanfarnar vikur, segir greiningardeild Landsbankans.

?Álagið er langt undir meðaltali síðustu 18 mánaða og er farið að nálgast sömu gildi og þegar það var lægst í október 2005, um 20 punktar,? segir greiningardeildin.Skuldatryggingarálag Landsbankans er 22,0 stig, Glitnis er 26,3 stig og Kaupþings er 30,8 stig.

?Frá áramótum hefur álagið lækkað um 8-18 punkta. Breyting lánshæfismats Moody?s á bönkunum í lok febrúar olli nokkurri lækkun á álaginu og fór það lægst í um 19,5 punkta hjá Landsbankanum og Glitni og í um 25,5 hjá Kaupþingi.

Álagið hækkaði þó fljótlega aftur eins og við höfum áður fjallað um. Uppgjör allra bankanna voru nokkuð góð þar sem allir bankarnir sýndu góða undirliggjandi afkomu. Fjárfestar eru auk þess farnir að þekkja bankanna mun betur en fyrir ári sem ætti að draga úr sveiflum á skuldatryggingarálaginu,? segir greiningardeildin.

Hún segir ein megináhersla viðskiptabankanna undanfarið hefur verið að auka hlutfall innlána í heildarfjármögnun sinni.

?Landsbankanum hefur tekist einstaklega vel til við öflun innlána og er hlutfall innlána á móti útlánum komið í 61,5% í stað rúmlega 45% síðastliðin áramót. Innlán Kaupþings uxu einnig mikið á fyrsta ársfjórðungi og er hlutfall innlána nú komið í tæp 35%. Glitnir hefur nokkuð lægra innlánshlutfall en hinir bankarnir en þróunin var einnig jákvæð hjá Glitni, hlutfall innlána á móti útlánum var rúm 30% á fyrsta ársfjórðungi. Það þarf því sennilega ekki að koma á óvart að skuldatryggingarálag bankanna sé að lækka jafnt og þétt,? segir greiningardeildin.