Þungar afborganir af skuldabréf Landsbankans í erlendri mynt sem hefjast eiga í byrjun næsta árs setja þrýsting á krónuna og gæti haft áhrif á kjarasamninga, að sögn Þorvarðar Tjörva Ólafssonar, hagfræðings hjá Seðlabankanum.

Fjallað var um kjarasamninga í hádegisfréttum fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar nú í hádeginu. Þar sagði Þorvarður Tjörvi ljóst að endurgreiðslubyrði Landsbankans af skuldabréfinu vegi þungt og geti haft áhrif á bæði framvindu kjarasamninga og áætlun um afnám gjaldeyrishafta.

Skuldabréf varð til við færslu eigna úr gamla Landsbankanum yfir í þann gamla eftir hrun. Í kjölfarið var samið um að nýi Landsbankinn greiði þeim gamla sem svarar til 1,5 milljarða punda, tæplega 300 milljarða króna, fyrir þær eignir sem hann tók yfir. Afborganir hefjast eftir áramótin. Í ritinu Fjármálastöðugleika sem Seðlabankinn birti í vikubyrjun er ítrekað mikilvægi þess að Landsbankinn annað hvort endurfjármagni lánið eða lengi í því.