„Við gengum frá kaupum, á 51% hlut í Skeljungi, sumarið 2008 af Glitni banka. Bankinn hafði dregið það að ganga frá sínum skyldum  í kaupsamningnum og hafði ekki afhent okkur fyrirtækið fyrir fall Glitnis banka. Eftir fall bankans neitaði hann að standa við þá kaupsamninga sem gerðir voru og því fengum við Skeljung með mun meiri skuldum en samningar sögðu til um,“ segir Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, fyrrverandi stjórnarformaður Skeljungs og einn eigenda félagsins Skel Investments. Félagið átti frá því árið 2008 og fram á þetta ár frá 51-34% hlut í Skeljungi. Svanhildur segir eigendur Skel Investments hafa fjármagnað kaupin með eiginfjárframlagi og um helming með lánum. Eiginfjárhlutinn hafi verið lítil og ljóst að verkefnið myndi snúast um að skila sem mestu af lánunum til baka.

Eins og greint var frá á VB.is fyrr í dag var félagið úrskurðað gjaldþrota í héraðsdómi Reykjavíkur 22. apríl síðastliðinn.

Skel Investments keypti árið 2008 51% hlut Miðengis, dótturfélags Íslandsbanka, í Skeljungi og fékk lánað 1,4 milljarða fyrir kaupunum. Á móti settu eigendur Skel Investments, Svanhildur, maður hennar Guðmundur Þórðarson og  Birgir Þór Bielvedt, sem síðar seldi hlut sinn, inn eigið fé upp á 1,5 milljarða króna. Lánið bar 9,9% verðtryggða vexti og var það allt veðsett Íslandsbanka.

Engar afborganir voru af láninu. Gjalddaginn var einn og átti þá að greiða höfuðstól lánsins með vöxtum. Á endanum gekk Íslandsbanki að veðum og tók aftur til sín þriðjung í Skeljungi.

„Lánin voru á háum verðtryggðum vöxtum og öllum ljóst við kaupin að erfitt yrði að standa undir því háa vaxtastigi. Við erum mjög sátt að okkur tókst að greiða upphaflegan höfuðstól lánsins eða um 1,4 milljarða króna og vexti að fjárhæð um 500 milljónir. Við töpuðum hins vegar öllu okkar eiginfjárframlagi og Íslandsbanki hluta af vöxtunum“ segir Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir.