„Við getum ekki kynnt eitthvað fyrir kröfuhöfum sem okkur sjálfum hefur ekki verið sagt frá eða kynnt," segir Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem sæti á í slitastjórn Kaupþings. Hvorki honum né öðrum hafa verið kynntar kröfur Seðlabankans um afslátt af krónueignum kröfuhafa. Í svari slitastjórnar Kaupþings til VB.is segir jafnframt að hún hafi engar forsendur til að tjá sig um hugmyndir, sem henni hafi ekki verið kynntar.

Í Morgunblaðinu í morgun sagði frá þeirri áætlun Seðlabankans sem gangi undir vinnuheitinu Bingó en samkvæmt henni verða nauðasamningar Kaupþings og Glitnis ekki samþykktir nema gegn að minnsta kosti 75% afslætti á 400 milljarða krónueignum kröfuhafanna. Stærstu eignirnar eru 95% hlutur kröfuhafa í Íslandsbanka og 87% hlutur þeirra í Arion banka.

Morgunblaðið sagðist skilaboðum þessa efnis hafa verið komið á framfæri við slitastjórnir og fulltrúa kröfuhafa bæði Glitnis og Kaupþings.

Steinunn Guðbjartsdóttir , formaður slitastjórnar Glitnis, sagði í samtali við VB.is fyrr í dag hvorki kannast við að slitastjórninni né kröfuhöfum hafi verið kynntar þessar hugmyndir.

Jóhannes tekur í svipaðan streng.

„Ég kannast ekki við að neinum hafi verið kynntar þessar tillögur,“ segir hann í samtali við VB.is.