Nokkuð þungt hljóð er innan ferðaþjónustunnar hér á landi vegna hertra sóttvarnaaðgerða á landamærunum sem tóku gildi á miðvikudag. Eru komufarþegar nú skimaðir tvisvar við komuna til landsins. Fyrri sýnatakan fer fram á landamærum og að því búnu ber komufarþegum að fara í sóttkví í fjóra til fimm daga þar til niðurstaða fæst úr seinni sýnatöku.

„Hertar aðgerðir við landamærin leggjast illa í okkur, enda lítum við svo á að með þessu sé verið að slökkva á ferðaþjónustunni," segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF). Hún telur aðgerðirnar hafa komið til skjalanna mjög óundirbúið og með örstuttum fyrirvara. „Því hefur gefist lítill tími fyrir ferðaþjónustufyrirtæki til að undirbúa sig."

Bjarnheiður segir samtökin einnig ósátt við það hvernig umrædd ákvörðun var tekin. „Okkur finnst ákvörðunin ekki byggð á nógu sterkum gögnum. Það var ekki gerð nógu djúpstæð greining á afleiðingum hertra aðgerða á landamærum á innlent efnahagslíf. Okkur þykir minnisblað fjármála- og efnahagsráðherra, um efnahagsleg markmið við ákvörðun um umfang sóttvarnaráðstafana á landamærum, ekki nógu vel unnið. Þetta er ekki nærri nógu djúp greining til að byggja svo stóra ákvörðun á."

Hún bendir á að hrakfarir ferðaþjónustunnar séu ekki einangrað vandamál einnar atvinnugreinar, enda smitist vandræði greinarinnar út í allt efnahagslífið. „Það er svo miklu meira undir en ferðaþjónustufyrirtækin. Þetta ástand hefur bein áhrif á um tugi þúsund manns sem starfa innan greinarinnar og síðan smitast áhrifin víðar út. Það að lama stærstu útflutningsgrein þjóðarinnar hefur að sjálfsögðu verulega slæm áhrif."

Skiljanlegar aðgerðir en lífsviðurværið undir

Friðrik Pálsson, eigandi og framkvæmdastjóri Hótels Rangár, segist sýna ákvörðun stjórnvalda um hertar aðgerðir á landamærum skilning, en bendir jafnframt á að lífsviðurværi þúsunda fjölskylda á Íslandi sé í húfi.

„Þegar svona mál koma upp hef ég reynt að temja mér það að setja mig í spor þeirra sem þurfa að taka erfiðar ákvarðanir líkt og þessa. Þessum aðgerðum er ætlað að vernda íbúa þjóðarinnar fyrir þessari veiru, og það er vel. Að sama skapi er þó ljóst að þetta mun hafa mjög mikil áhrif á ferðaþjónustuna og allar atvinnugreinar sem tengjast og þjóna henni með einum eða öðrum þætti."

„Oft þegar talað er um ferðaþjónustuna, er framsetningin svolítið ópersónuleg. Ferðaþjónustan er ekkert annað en gríðarlega mikill fjöldi fólks sem hefur lífsviðurværi af því að þjóna ferðamönnum," bætir hann við.

Friðrik Pálsson
Friðrik Pálsson
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Friðrik Pálsson, eigandi og framkvæmdastjóri Hótels Rangár.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .