Tekjur lyfjafyrirtækisins Medis drógust saman um tæp 10% í krónum talið í fyrra og námu 33 milljörðum, og hagnaður um milljarð og nam 650 milljónum. Fyrirtækið – sem er hluti Actavis-samstæðunnar, sem sjálf er í eigu ísraelska lyfjarisans Teva – var í söluferli svo til allt árið, sem olli talsverðu raski á starfseminni, en hætt var við söluna undir lok ársins. Að auki tvöfaldaðist stjórnunarkostnaður, að mestu vegna endurskipulagningar.

Sigfús Örn Guðmundsson, markaðs- og samskiptastjóri Medis, segir að þrátt fyrir allt hafi árið gengið nokkuð vel heilt yfir. „Það hafa verið svolítið af breytingum hjá okkur og við höfum verið í smá vandræðum með birgðamál, sem hafa verið að leysast núna á þessu ári. Það er allt að komast á rétt ról aftur.“

Medis
Medis
© vb.is (vb.is)

Framlegð félagsins nam 4 milljörðum og var svo til óbreytt milli ára í krónum, en stjórnunarkostnaður jókst um milljarð og nam rúmum tveimur milljörðum. Hjá félaginu störfuðu 76 manns í fyrra. „Mestur hluti þessarar aukningar er til kominn vegna víðtækra skipulagsbreytinga sem við erum að klára að ganga frá núna næstu misserin,“ segir Sigfús. Eignir félagsins drógust saman um um það bil fjórðung og námu 14,3 milljörðum króna í árslok 2018, og eigið fé hrundi úr tæpum 6 milljörðum í tæpan milljarð.

Vöruframboðið fryst
Teva Pharmaceuticals keypti Actavis, og þar með Medis, árið 2016, en ákvað stuttu síðar að selja Medis út úr samstæðunni vegna þungs skuldaklafa. Var Medis á þeim tíma sagt metið á á bilinu hálfs til eins milljarðs bandaríkjadala, 60-120 milljarða króna á gengi þess tíma. „Okkur var þá sniðinn svolítið þröngur kostur. Við fengum ekki nýjar vörur á meðan það var verið að búa til stöðugan pakka fyrir fjárfesta. Það er flókið mál að selja lyfjafyrirtæki með 150 mismunandi vörum sem koma úr 50 mismunandi verksmiðjum. Vöruframboðið okkar var því nokkurn veginn fryst á meðan, sem hafði áhrif á tekjurnar næstu árin.“

Í desember í fyrra hætti Teva svo við söluferlið. „Það ákvað síðan að halda fyrirtækinu frekar og byggja það upp, það reyndist of flókið að selja. Eftir það erum við aftur farin að fá nýjar vörur og getum haldið ótrauð áfram að stækka.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .