*

föstudagur, 5. júní 2020
Fólk 19. október 2018 15:21

Sonja Ýr nýr formaður BSRB

Lögfræðingur Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sigraði mótframbjóðanda sinn, Véstein Valgarðsson í formannslag.

Ritstjórn
Vésteinn Valgarðsson, stuðningsfulltrúi á Kleppi og Sonja Ýr Þorbergsdóttir lögfræðingur BSRB og Aðjúnkt kepptu um formennsku í BSRB, sem lauk með sigri Sonju Ýrar.
Aðsend mynd

Sonja Ýr Þorbergsdóttir er nýr formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja en hún tekur við af Elínu Björg Jónsdóttur sem tilkynnti í sumar að hún myndi ekki gefa kost á sér áfram.

Sigraði Sonja Ýr mótframbjóðanda sinn, Véstein Valgarðsson, stuðningsfulltrúa á Kleppi, sem fékk 13,5% atkvæða að því er Gunnar Smári Egilsson greinir frá á facebook síðu sinni. Kosningin fór fram á 45. þingi bandalagsins á Hótel Nordica, og sátu 200 manns frá öllum 26 aðildarfélögum bandalagsins þingið.

Sonja Ýr hefur starfað sem lögfræðingur bandalagsins síðastliðinn áratug ásamt því að vera stundakennari frá 2011 og aðjúnkt frá 2014 við Háskólann á Bifröst. Auk þess hefur hún verið stundakennari við laga- og viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, í Vinnurétti frá 2014.

Sonja er með B.Sc. gráðu í viðskiptalögfræði og ML gráðu í lögfræði frá Háskólanum á Bifröst. Auk þess hefur hún setið í ýmsum opinberum stjórnsýslunefndum fyrir hönd bandalagsins.