Fyrirtækið Vogabær ehf., sem meðal annars framleiðir E. Finnsson-sósurnar og Vogaídýfu, hagnaðist um 14 milljónir króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins.

Það er ljóst að Íslendingar hafa verið iðnir við sósuátið á síðasta ári, en samtals námu seldar vörur fyrirtækisins rúmlega 905 milljónum króna á árinu. Var það aukning um 7 milljónir króna frá fyrra ári. Aftur á móti jukust rekstrargjöldin einnig, eða sem nemur 7,5 milljónum króna, og voru þau samtals 853 milljónir króna.

Eignir félagsins námu 583 milljónum króna í lok ársins en þar af nemur viðskiptavild fyrirtækisins 298 milljónum króna. Skuldir voru 306 milljónir króna og nam eigið fé félagsins því 277 milljónum króna í árslok.

Allt hlutafé fyrirtækisins er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga.