Lánshæfisfyrirtækið Standard & Poor's (S&P) lækkaði langtíma lánshæfismat ungverska ríkisins úr A- niður í BBB+.

S&P segir ástæðuna fyrir þessu vera mikla og skyndilega skuldaaukningu ríkisins, mikinn viðskiptahalla og efasemdir um að Ungverjum takist að snúa við blaðinu í tæka tíð. Fyrirætlun Ungverja er að minnka viðskiptahallann úr 8% niður í 3% fyrir 2008 og draga úr skuldum ríkisins nær eingöngu með skattahækkunum, fremur en með auknu aðhaldi í ríkisútgjöldum.

Til þess að bæta gráu ofan á svart tilkynnti S&P ennfremur að horfurnar væru neikvæðar, sem þýðir að líklegra er að lánshæfiseinkunninn lækki frekar en hækki.

Í kjölfar tilkynningar S&P féll ungverska myntin, forintan, um 0,6% í dag fimmtudag og hefur ekki verið veikari gagnvart evru síðan í ársbyrjun 2004. Áhrifin á hlutabréfamarkaði voru hins vegar mun minni.