Verðbólga í Bretlandi gæti farið yfir 22% á næsta ári vegna hækkandi orkuverðs, samkvæmt sérfræðingum hjá Goldman Sachs. Þetta kemur fram í grein hjá The Times.

Ofgem, orkustofnun Bretlands, hefur gefið það út að þak á orkuverð muni hækka um 80% í janúar á næsta ári. Vegna þessa telur Goldman Sachs að verðbólgan muni skjótast upp í rúm 22%.

Tólf mánaða verðbólgan í Bretlandi mældist 10,1% í júlí og hefur hún ekki mælst hærri í fjörutíu ár. Breski seðlabankinn spáir því að verðbólgan fari yfir þrettán prósent fyrir árslok.

Sjá einnig: Spáir 18,6% verðbólgu í Bretlandi í byrjun næsta árs

Spá Goldman Sachs er heldur svartsýnni en spá Citigroup sem spáir 18,6% verðbólgu í Bretlandi í janúar. Citi byggir einnig spá sína á ört hækkandi gas- og orkuverði.

Ef spá Goldman Sachs nær fram að ganga mun verðbólgan ná nærri hálfrar aldar hámarki. Mikill samdráttur var í Bretlandi og öðrum ríkjum á árunum 1973-1975, en verðbólga í Bretlandi árið 1975 mældist um 25%. Hún hefur ekki náð sömu hæðum síðan.