Síðastliðið ár var það besta í sögu ferðaþjónustunnar á Íslandi. Aldrei hafa fleiri sótt landið heim, eða rúmlega 780 þúsund manns um Keflavíkurflugvöll samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Talningin þar nær til um 96% erlendra gesta, en aðrir gestir koma um aðra flugvelli, með Norrænu og öðrum skipum. Greiningardeild Íslandsbanka segir að fjölgun ferðamanna frá árinu 2010 sé einsdæmi á jafnskömmum tíma síðan talningar á ferðamönnum hófust, en fjölgun þeirra nemur 70% frá árinu 2010.

Þetta endurspeglast í auknum tekjum greinarinnar, en heildarúttekt erlendra greiðslukorta innanlands nam meira en 90 milljörðum á síðasta ári. Þá var kortaveltujöfnuður hagkerfisins, þ.e. kortavelta erlendra greiðslukorta innanlands að frádreginni kortaveltu íslenskra greiðslukorta erlendis, nú jákvæð um meira en 10 milljarða, eftir að hafa verið neikvæð lungann úr síðasta áratug.

Greiningadeild Arion banka bendir á að umsvif ferðaþjónustunnar í skilningi þjóðhagsreikninga hafi jafnframt aukist nokkuð, en þjónustuútflutningur hefur vaxið langtum hraðar en bæði vöruútflutningur og landsframleiðsla á umliðnum árum[1]. Gróft áætlað er uppsafnað framlag þjónustuútflutnings til hagvaxtar um +9,6% á árunum 2009-2013.

Greiningadeild Arion banka segir allar forsendur vera fyrir kröftugan vöxt ferðaþjónustunnar á komandi árum. Greiningadeildin telur að ferðamenn verði um 909 þúsund á árinu 2014. Milljónasti ferðamaðurinn komi síðan til landsins í desember árið 2015, en þeir verði um 1.007 þúsund það árið og fjölgi svo í 1.093 þúsund árið 2016.