Greiningardeild Glitnis spáir því að Seðlabanki Íslands haldi stýrivöxtum sínum óbreyttum í 13,3%, en sýrivaxtaákvörðun bankastjórnarinnar verður tilkynnt á fimmtudaginn.

"Á sama tíma og vextir hafa farið hækkandi erlendis og útlit er fyrir að sú þróun haldi áfram standa stýrivextir Seðlabanka Íslands í stað og líklegt er að vextir bankans verði lækkaðir nokkuð hratt á komandi ári. Munur á erlendum og innlendum skammtímavöxtum mun því fara minnkandi," segir Greiningardeildin.

Hún segir minnkandi vaxtamun við útlönd draga úr hvatanum til vaxtamunarviðskipta, en krónubréfaútgáfa er ein birtingarmynd slíkra viðskipta. "Á meðan vextir á Íslandi eru eins háir og raun ber vitni má þó ætla að hvatinn til að taka lán í lágvaxtamyntum eins og jeninu og svissneska frankanum og fjárfesta í innlendum eignum sé enn til staðar," segir Greiningardeildin.

Vaxtatilkynningar frá Seðlabanka Englands og Seðlabanka Evrópu eru væntanlegar á fimmtudag og frá Seðlabanka Ástralíu á miðvikudag.

Samkvæmt könnun Reuters meðal greiningaraðila eru væntingar um að vextir á evrusvæðinu haldist óbreyttir í 4,0% en að stýrivextir Englandsbanka verði hækkaðir um 0,25 prósentustig, úr 5,5% í 5,75%. Búist er við óbreyttum vöxtum í Ástralíu í 6,25%.

"Stýrivextir í heiminum hafa farið hækkandi á undanförnum vikum og mánuðum eftir því sem verðbólguhorfur hafa versnað. Svo dæmi séu tekin hækkaði nýsjálenski seðlabankinn nýverið stýrivexti sína í 8,0%, norski seðlabankinn hækkaði vexti í 4,5% og stýrivextir sænska seðlabankans eru nú 3,5% og frekari hækkanir sagðar framundan. Þá hafa vextir á evrusvæðinu og í Bretlandi ekki verið hærri í sex ár og vaxtalækkanir ekki fyrirséðar í náinni framtíð," segir Greiningardeildin.