Búast má við að stýrivextir Seðlabankans verði óbreyttir fram að áramótum en hækki á ný á næsta ári. Vaxtaspá greiningar Íslandsbanka hljóðar upp á 6,3% meðalvexti á næsta ári, að því er fram kemur í Morgunkorni deildarinnar. Greint var frá því í morgun að Peningastefnunefnd hafi ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 6,0%.

Greiningardeildin segir yfirlýsingu Peningastefnunefndar og aðgerðir Seðlabankans í takt við spár og renna stoðum undir spá um óbreytt vaxtastig út árið.

Í Morgunkorninu segir að hið óvænta í yfirlýsingu Peningastefnunefndar sé óbreyttur tónn frá síðustu vaxtaákvörðun þrátt fyrir bæði hægari hagvöxt og bættum verðbólguhorfum. Af þeim sökum hefði mátt vænta þess að nefndin myndi nefna möguleikann á lækkun stýrivaxta.