Sérfræðingar bandaríska fjárfestingarbankans Goldman Sachs spá því að bandaríska hagkerfið renni inn í samdráttarskeið á þessu ári og hald þeirra er að stýrivextir verði komnir niður í 2,5% á þriðja ársfjórðungi.

Í greiningu sem send var viðskiptavinum bankans í gær kemur fram að bandaríska hagkerfið muni dragast saman á öðrum og þriðja ársfjórðungi. Sérfræðingar bankans telja að verg landsframleiðsla muni dragast saman um 1% á ársgrundvelli á tímabilinu og að hún muni aðeins aukast um 0,8% á árinu. Skilgreiningin á samdráttarskeiði felur í sér minnkandi hagvöxt tvo ársfjórðunga í röð.

Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi muni aukast og að það verði komið upp í 6,5% á næsta ári en það mælist nú 5%.

Til þess að stemma stigu við samdrættinum gera sérfræðingar bankans ráð fyrir að seðlabankayfirvöld muni lækka stýrivexti um 125 punkta á næstu misserum. Stýrivextir í Bandaríkjunum eru nú í 4,25%.

Þegar kemur að hlutabréfaráðgjöf fyrir einstaka geira hagkerfisins mæla sérfræðingar bankans með því að fjárfestar dragi úr stöðu sinni í fjármála- og upplýsingatæknigeirunum. Hins vegar mæla þeir með því að þeir auki stöðu sína í hlutabréfum í heilbrigðisgeiranum og í framleiðendum ýmiss konar nauðsynjavöru.

Greining Goldman birtist tveimur dögum eftir að Merill Lynch boðaði að nýjar atvinnuleysistölur staðfestu að samdráttarskeið væri nú þegar hafið í Bandaríkjunum