Könnun Samtaka iðnaðarins á stöðu og horfum, sem að þessu sinni nær til 93 iðnfyrirtækja í níu undirgreinum iðnaðar, staðfestir að talsverð uppsveifla er í gangi í ár. Þó er útlit fyrir að 15% raunaukning á veltu í iðnaði í ár minnki á komandi ári og verði um 4%. Jafnframt er spáð að fjárfestingar, sem jukust um 36% í ár, dragist saman um 21% á komandi ári. Þá áætla fyrirtækin að rekstrarhagnaður (hagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði) aukist um 24% í ár frá fyrra ári. Fyrirtækin, sem eru með um 7,400 starfsmenn um þessar mundir, áætla að bæta við um 130 störfum fyrir áramótin, en það er tæplega 2% aukning á starfsmannafjölda.

Mest hefur veltuaukning orðið í mannvirkjagerð og hátæknigreinum iðnaðar. Stóriðjuframkvæmdir og aukin fjárfesting í húsnæði útskýra þróun í jarðvinnustarfsemi og byggingum. Heilsu- og hátækniiðnaður er einnig í mikilli uppsveiflu vegna góðs árangurs í útrás á alþjóðlega markaði. Upplýsingatækniiðnaður er einnig að auka veltu talsvert, ásamt efnaiðnaði, endurvinnslu, pappírs- og prentiðnaði. Þær greinar fylgja þróun innlendrar eftirspurnar. Heldur minni vöxtur hefur orðið í matvæla- og drykkjarvöruiðnaði, plastvöruframleiðslu og veiðarfæragerð og málm- og skipasmíðaiðnaði, en þessar greinar búa við erfiða samkeppnisstöðu tengda háu raungengi krónunnar.

Fjárfestingaráform fyrirtækjanna og hagnaður einstakra greina fer nokkuð vel saman. Þó er ljóst að jarðvinnustarfsemi áætlar minni fjárfestingar á næsta ári. Benda má á að könnunin náði ekki til Impreglio og Bechtel, en það hefur einhver áhrif á niðurstöðuna. Samdráttur í fjárfestingum prent- og pappíriðnaði endurspeglar gífurlegar fjárfestingar í þessum geira undanfarin ár.

Varðandi mannahald má benda á að samdráttur í jarðvinnustarfsemi endurspeglar árstíðina, en þessi geiri fer oftast í lægð um háveturinn. Í plast- og veiðafærargerð endurspeglar 10% samdráttur í mannahaldi að eitt fyrirtæki er að færa hluta framleiðslu sinnar úr landi vegna erfiðrar samkeppnisstöðu.