Hlutabréf í spænskum bönkum hækkuðu nokkuð á mörkuðum í dag, eftir að Evrópudómstóllinn birti álit um áralöng deilumál um lágmarksvexti í fasteignaviðskiptum.

Snýst um lágmarksvaxtagreiðslur

Hækkuðu hlutabréf í Liberbank um 14,12%, sem er þó lítill banki, meðan aðrir bankar hækkuðu minna. Hækkaði Banco Sabadell um 3,31%, Banco Popular hækkaði um 2,39% og Caixabank um 3,19%.

Allir fjórir bankarnir starfa fyrst og fremst á spænska markaðnum og eru því líklegir til að græða á því ef endanlegur úrskurður dómstólsins verður samhljóða áliti dómarans sem birtist í dag. Málið snýst um að árið 2013 dæmdi dómstóll á Spáni að vaxtalágmörk væru ólögleg, en bönkunum hafði verið stefnt til að endurgreiða ofgreidda vexti fyrir þann tíma.

Samkvæmt skýrslu frá Morgan Stanley hafa spænskir bankar haft um 1,1 milljarð evra í tekjur frá vaxtalágmörkum síðan úrskurðurinn féll árið 2013, en í heildina um 7 milljarða evra síðan 2008.