Páll Rúnar M. Kristjánsson
Páll Rúnar M. Kristjánsson

Líklegt má telja að máli sérstaks saksóknara gegn mönnum tengdum Milestone, þ.á.m. Wernersbræðrum, verði vísað frá dómi, að mati Páls Rúnars M. Kristjánssonar, lögmanns. Í grein, sem hann ritar í Fréttablaðið segir hann að að það sé andstætt grundvallarhugmyndum um réttlæti og réttláta málsmeðferð að dómur í sakamáli sé byggður á rannsókn, sem spillst hefur með þeim hætti að rannsakendur hafi fengið greitt frá ótengdum hagsmunaaðila fyrir rannsókn málsins. Er hann þar að vísa til frétta af því að tveir lögreglumenn, sem unnu að rannsókn málsins, fengu greitt frá þrotabúi Milestone fyrir gögn, sem þeir öfluðu samhliða rannsókninni hjá Sérstökum saksóknara.

Páll segir það einn af hornsteinum réttlátrar málsmeðferðar að rannsókn máls á hendur sakborningi sé unnin af óvilhöllum og sjálfstæðum aðila. Þessum rannsóknaraðila ber að sýna hlutlægni við störf sín og vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós. Réttlát málsmeðferð skuli ekki einvörðungu verða laus við ómálefnaleg sjónarmið, hún megi heldur ekki bera það með sér að sakborningur megi með réttu efast um að mál hans hafi fengið réttláta meðferð. „Það er því ljóst að ekki má vera fyrir hendi nein raunveruleg ástæða til þess að draga í efa óhlutdrægni og sjálfstæði rannsakenda.“