Sparisjóðurinn í Keflavík lánaði fram til ársins 2008 á annan tug milljarða króna til tæplega 90 einkahlutafélaga og einstaklinga, án haldbærra veða og trygginga. Þetta kemur fram í skýrslu sem Fjármálaeftirlitið vann um útlánastefnu Sparisjóðsins í Keflavík. Skýrslan var unnin í september 2008, um mánuði fyrir bankahrun. FME skoðaði tæplega 80 lánveitingar til einkahlutafélaga og einstaklinga upp á ríflega 11 milljarða króna, sem veitt voru gegn lélegum veðum og í mörgum tilfellum án nokkurra trygginga.

Fréttastofa RÚV greindi frá í kvöldfréttum í gær. Í skýrslu FME er starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík harðlega gagnrýnd, hvorki hafi verið til heildstæðar reglur um útlán né áhættustýringu. Áhættustýringu var ekki kunnugt um lán sem þáverandi sparisjóðsstjóri skrifaði upp á. Þá var útlánasafnið metið vafasamt. Ýmis lánagögn vantaði, svo sem lánsumsóknir, samninga, lánveitingaskjöl og upplýsingar um tryggingar fyrir lánum. Einnig er gerð alvarlegar athugasemdir við að hvorki hafi verið skráðar reglur um veðköll né að regluleg álagspróf hafi verið framkvæmd.

Lán án veða

Í frétt RÚV kemur fram að þáverandi bæjarfulltrúi Reykjanesbæjar, Steinþór Jónsson, og félög tengd honum hafi fengið tæplega 600 milljónir króna að láni frá sjóðnum án tryggra veða. Einkahlutafélagið Bergið ehf., sem var m.a. í eigu Steinþórs, skuldaði um 370 milljónir króna vegna láns frá sjóðnum. Veð fyrir því láni voru verðlaus hlutabréf í Icebank. Einkahlutafélagið BASE ehf., sem stóð að uppbyggingu á gamla varnarsvæðinu á Miðnesheiði og er nú gjaldþrota, fékk 120 milljónir króna frá Sparisjóðnum í keflavík án nokkurra trygginga. Steinþór var framkvæmdastjóri félagsins.

Þá fékk Salt Investments ehf., félag í eigu Róbert Wessmanns, rúmlega 300 milljóna króna að láni hjá sjóðnum án trygginga. Tvö önnur félög í eigu Róberts fengu um 180 milljónir að láni hjá sjóðnum, með hlutabréf í Icebank að veði á öðrum veðrétti, en hlutabréfin voru verðlaus þegar skýrsla Fjármálaeftirlitins var gerð. Félög fyrrum stjórnarformanns Icebank, Gríms Karls Sæmundsen, fengu um 730 milljónir króna að láni með nánast verðlausum veðum, að því er kemur fram í frétt Rúv.

Þá er fjallað um lánveitingu til sonar Geirmundar Kristinssonar, þáverandi sparisjóðsstjóra, sem fékk 58 milljónir króna að láni gegn 17 milljóna króna veði í íbúð í Reykjavík.

Samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV hefur lítil sem engin breyting orðið skuldastöðu fyrrgreindra frá því að skýrsla FME var gerð, og þar til sparisjóðurinn féll í apríl og ný stjórn tók við.

Uppfyllti ekki skilyrði

Sparisjóður Keflavíkur uppfyllti ekki skilyrði um eiginfjárhlutfall við árslok 2008. Fjármálaeftirlitið, sem gerði áðurnefnda skýrslu í september, veitti sjóðnum ekki formlegan frest til að bregðast við alvarlegri stöðu fyrr en í maí árið 2009. Erfið staða hafði þá þegar komið fram í endurskoðuðum ársreikningi, að því er greint frá í Morgunblaðinu í dag. Vísað er í skýrslu slitastjórnar til kröfuhafa sjóðsins.

Endurskoðaður ársreikningur fyrir árið 2008 er undirritaður í mars árið 2009. Sparisjóðurinn starfaði því í tæpt ár þó svo það lægi fyrir að hann uppfyllti ekki kröfur um lögbundið eigið fé.

Fram kemur í skýrslu slitastjórnar til kröfuhafa sjóðsins að FME hafi framlengt þennan frest þrettán sinnum í framhaldinu, allt fram til 21. apríl í fyrra. Þá tók ríkið sjóðinn yfir. Lýstar kröfur í þrotabúið námu 36 milljörðum og samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er líklegt að endurheimtur þrotabúsins upp í kröfur verði nærri því engar.

Ríkið mun leggja Spkef, sem reistur var á rústum Sparisjóðs Keflavíkur, til um 14 milljarða króna. Ríkið hefur þegar lagt Spkef til 900 milljónir króna í eigið fé. Alls hefur íslenska ríkið eyrnamerkt um 20 milljarða króna í endurfjármögnunum sparisjóðakerfisins á fjárlögum.