Hagnaður Landsbankans á þriðja ársfjórðungi nam 1,7 milljörðum króna. Þetta er um sjö hundruð milljónum minna en á sama tíma í fyrra og talsvert minna en á fyrri hluta árs. Samdrátturinn skýrist einkum af virðisrýrnun lánasafns bankans og auknum rekstrarkostnaði sem má rekja að hluta til gjaldfærslu vegena starfsloka í tengslum við hagræðingaraðgerðir bankans.

Hagnaður Landsbankans á fyrstu níu mánuðum ársins nam 13,5 milljörðum króna. Til samanburðar nam hann 27 milljörðum króna á sama tíma í fyrra. Fram kemur í uppgjörstilkynningu Landsbankans að afkoman hafi verið mjög sveiflukennd í fyrra og samanburðurinn því erfiður.

Þá kemur fram í uppgjörinu að heildarrekstrartekjur bankans á fyrstu níu mánuðum ársins hafi numið 30 milljörðum króna og var það um 25% samdráttur á milli ára. Mestu ræður virðisbreyting útlána sem er meðal annars tilkomin vegna gjaldfærslu í tengslum við yfirtöku Landsbankans á SpKef og gjaldfærslu um 2,1 milljarð til viðbótar vegna nýfallins dóms um vexti við endurreikning gengistryggðra lána.

Steinþór Pálsson segir rekstur Landsbankans þrátt fyrir þetta á áætlun. Á hinn bóginn skipti gengislánadómar miklu.

„Dómar sem fallið hafa á árinu um ólögmæt gengistryggð lán sýna að enn verður bið á endanlegri niðurstöðu í því máli. Mikilvægt  er að það skýrist sem fyrst þar sem miklir hagsmunir eru í húfi fyrir alla aðila,“ segir hann.

Uppgjör Landsbankans