Róbert Agnarsson, stjórnarformaður Sparisjóðs Mýrasýslu, segir í samtali við Viðskiptablaðið að starfslokakjör Gísla Kjartanssonar , fráfarandi sparisjóðsstjóra, séu „ásættanleg niðurstaða fyrir báða aðila“.

Gísli mun aðstoða nýjan sparisjóðsstjóra, Bernhard Þór Bernhardsson , í nokkrar vikur áður en hann lætur alfarið af störfum.

Róbert Agnarsson vildi ekkert gefa upp um kjör Gísla að starfi hans loknu, og ekki fengust þær upplýsingar heldur hjá Gísla sjálfum né nýjum sparisjóðsstjóra þegar leitað var eftir þeim.

„Við gefum það ekki upp,“ segir Róbert í samtali við Viðskiptablaðið.

Róbert kom inn sem formaður stjórnar sparisjóðsins fyrir hönd Kaupþings, ásamt Þórbergi Guðjónssyni, en Kaupþing á 70% í SPM.