Framkvæmdum vegna stækkunar eldsneytisverkmiðju Carbon Recycling International (CRI) í Svartsengi er lokið. Framkvæmdirnar hófust síðasta sumar hafa því tekið tæpt ár. Eftir stækkunin mun framleiðslugeta verksmiðjunnar þrefaldast og getur hún nú framleitt 4.000 tonn af endurnýjanlegu metanóli á ári. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins nemur kostnaðurinn við stækkunina um hálfum milljarði króna.

„Í verksmiðjunni er endurnýjanlegt metanól, sem er fljótandi eldsneyti, búið til úr rafmagni með samruna vetnis og koltvísýrings," segir í tilkynningu frá CRI. „Framleiðsla verksmiðjunnar hefur sömu áhrif á losun koltvísýrings og um 2.200 rafmagnsbílar. Þetta jafngildir sjöföldum flota rafbíla sem fyrir eru í landinu."

Viðskiptablaðið greindi frá því í byrjun desember að CRI hefði fengið 1,3 milljarða króna styrk úr Horizon2020-sjóðnum, sem er stærsti rannsóknar- og nýsköpunarsjóður Evrópusambandsins. Sá styrkur verður notaður til að reisa metanólverksmiðju við kolaorkuver þýska orkufyrirtækisins Steag í Lünen í Þýskalandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .