Deloitte á heimsvísu hefur ráðist í stærstu uppstokkunina á starfsemi sinni í áratug en fyrirtækið horfir nú til þess að draga úr kostnaði og einfalda skipulag vegna væntinga um minni eftirspurn eftir þjónustu sinni. Financial Times greinir frá.

Áform Deloitte fela í sér að grunnrekstrareiningum fækki úr fimm í fjórar. Eftir standi: endurskoðun og áreiðanleikakannanir; stefnumótun, áhættugreining og ráðgjöf við samruna og yfirtökur; tækni og umbreyting, og að lokum skatta- og lögfræðiráðgjöf. Nánari upplýsingar um breytingarnar má finna í umfjöllun FT.

Heimildarmaður breska dagblaðsins sagði að ekki væri búið að slá niður tölu um vænta kostnaðarlækkun vegna aðgerðanna.

Joe Ucuzoglu, forstjóri Deloitte á heimsvísu, fer fyrir aðgerðunum sem munu ná til aðildarfyrirtækja Deloitte í yfir 150 löndum. Áætlað er að taka muni eitt ár að innleiða breytingarnar.

Tekjur Deloitte á heimsvísu jukust um 15% og námu tæplega 65 milljörðum dala á síðasta fjárhagsári. Félagið tryggði sér þar með stöðu stærsta félagsins á sínum markaði. Í umfjöllun FT kemur hins vegar fram að krefjandi efnahagsumhverfi kunni að leiða til þess að viðskiptavinir leiti leiða til draga úr kostnaði með tilheyrandi áhrifum á eftirspurn og tekjur.

Vísað er í skýrslu Source Global Research, þar sem spáð er nær engum vexti á ráðgjafarmarkaðnum í Bretlandi í ár, þar sem stóru endurskoðunarfyrirtækin fjögur eru tekin með í reikninginn.

Stóru endurskoðunarfyrirtækin fjögur eru í raun rekin sem net samstarfsfyrirtækja víðs vegar um heim sem tengjast í gegnum alþjóðlega einingu sem sér um stefnumótun. Öll aðildarfyrirtæki greiða árlegt gjald til einingarinnar.