Þrátt fyrir að Covid-19 farsóttin hafi átt uppruna sinn að rekja til Kína þá mátti ekki sjá að niðursveiflan sem fylgdi út um allan heim hafi bitnað verulega á kínverska bankakerfinu. Stóru ríkisbankarnir fjórir í Kína hafa haldið efstu sætunum á lista yfir stærstu banka heims, sé horft til heildareigna, samfleytt frá árinu 2015.

Heildarvirði eigna þeirra jókst um 17% á milli 2019 og 2020 og samanlagður hagnaður þeirra á síðasta ári nam nærri 20 þúsund milljörðum króna. Af tíu stærstu bönkum heims á þennan mælikvarða eru tveir bandarískir bankar, einn japanskur, einn breskur auk tveggja franskra banka. Saman hafa bankarnir tíu um 2,7 milljónir manns í vinnu.

Eftirfarandi eru fimm stærstu bankar heims (fjárhæðir í krónum, byggja á rekstrarárinu 2020):

1. Iðnaðar- og verslunarbanki Kína (ICBC) hefur frá árinu 2012 verið stærsti banki heims þegar horft er til heildareigna. ICBC var formlega stofnaður árið 1984 og tók við fyrirtækjaþjónustu af People‘s Bank of China þegar sá síðarnefndi var gerður að seðlabanka Kína. Árið 2006 var ICBC tvískráður í kauphallir Hong Kong og Shanghai samhliða 21,9 milljarða dala útboði sem þá var stærsta frumútboð sögunnar. Árið 2008 skrifaði ICBC undir leigusamning í Trump Tower og var um árabil stærsti leigjandinn í byggingunni. Bankinn, sem er að mestu í eigu kínverska ríkisins, er með yfir 400 erlend dótturfélög.

  • Heildareignir: 630 þúsund milljarðar
  • Hagnaður 6.230 milljarðar
  • Arðsemi heildareigna: 0,99%
  • Starfsmenn: 430 þúsund

2. Kínverski framkvæmdabankinn (CCB) er næststærsti banki heims en alls rekur hann tæplega 15 þúsund útibú. CCB er einn elsti banki Kína en hann var stofnaður árið 1954 til að útdeila og greiða út fjármuni kínverska ríkissjóðsins til byggingar- og innviðaframkvæmda í samræmi við efnahagslega stefnu stjórnvalda. CCB fór að veita alhliða bankaþjónustu í kjölfar stofnunar Þróunarbanka Kína árið 1994 sem tók við lögskipuðu hlutverki CCB. Bankinn var skráður í Hong Kong kauphöllina árið 2005 og bréfin tvískráð í Shanghai kauphöllina árið 2007. CCB á meira en 200 erlend dótturfélög í 31 landi.

  • Heildareignir: 547 þúsund milljarðar
  • Hagnaður 5.370 milljarðar
  • Arðsemi heildareigna: 0,98%
  • Starfsmenn: 345 þúsund

3. Landbúnaðarbanki Kína (ABC) var stofnaður árið 1951 og sérhæfði sig upphaflega í bankaþjónustu til verkefna og fyrirtækja í landbúnaði, eins og nafnið gefur til kynna. Bankinn er í dag með fleiri en 23 þúsund útibú og nærri 460 þúsund starfsmenn en enginn annar banki í heiminum er með jafnmarga starfsmenn. ABC safnaði 22,1 milljarði dala í frumútboði árið 2010 og sló þar með met ICBC. Árið 2007 varð ABC fyrir stærsta bankaráni í sögu Kína þar sem tveir stjórnendur drógu sér peninga og keyptu fyrir þá lottómiða, með það í huga að skila fjármagninu og halda ágóðanum. Í stuttu máli gekk planið ekki upp.

  • Heildareignir: 529 þúsund milljarðar
  • Hagnaður: 4.250 milljarðar
  • Arðsemi heildareigna: 0,83%
  • Starfsmenn: 459 þúsund

4. Bank of China (BOC), stofnaður 1912, er næstelsti starfandi bankinn á meginlandi Kína. Frá stofnun til ársins 1942 var BOC meðal fjögurra banka sem gáfu út seðla af hálfu ríkisins. BOC er talinn alþjóðlegasti banki Kína en alls er hann með starfsstöðvar í 61 landi. Útibú bankans í New York var það fyrsta meðal stóru kínversku bankanna til að bjóða upp á fjármálagerninga í kínverska júaninu.

  • Heildareignir: 529 þúsund milljarðar
  • Hagnaður: 474 milljarðar
  • Arðsemi heildareigna: 0,87%
  • Starfsmenn: 305 þúsund

5. Mitsubishi UFJ Financial Group (MUFG) er eitt af þremur stóru fyrirtækjunum innan Mitsubishi-samstæðunnar, hóps sjálfstæðra alþjóðlegra fyrirtækja sem starfa í ólíkum geirum en eiga rætur sínar að rekja til fyrirtækisins Mitsubishi zaibatsu, sem var uppi á árunum fyrir fyrri heimsstyrjöldina. Í gegnum tíðina hafa stjórnendur Mitsubishi-fyrirtækjanna hist á öðrum föstudegi hvers mánaðar til að ræða um stefnumótun. Mitsubishi Bank sameinaðist The Bank of Tokyo árið 1996 sem síðar sameinuðust UFJ Holdings árið 2005 og úr varð stærsti banki Japans.

  • Heildareignir: 437 þúsund milljarðar
  • Hagnaður: 1.475 milljarðar
  • Arðsemi heildareigna: 0,34%
  • Starfsmenn: 132 þúsund

Sjá einnig: Stærstu bankar heims: 6-10

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu sem kom út nýlega. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .