287 félög hafa heimild til að gera upp og semja ársreikning í erlendri mynt fyrir árið 2011. Þetta kemur fram í Tíund, fréttablaði Ríkisskattstjóra. Af þessum félögum gera flest upp í evru og næst flest í bandaríkjadal sem er ólíkt því sem verið hefur.

Þetta er ekki nema lítið brot af heildarfjölda íslenskra félaga en veltutölur þeirra benda þó til að hér sé um mörg stærstu félög landsins að ræða en árið 2010 var heildarvelta þessara félaga um 20,9% af heildarveltu allra íslenskra félaga.

Sambærilegar tölur liggja ekki fyrir vegna ársins 2011. Þetta felur það í sér að 1% af félögum á Íslandi standa undir hátt í fjórðungi veltu allra íslenskra félaga og kjósa þessi félög að gera upp í erlendri mynt. Stærstu aðilarnir í íslensku atvinnulífi virðast því ekki bíða boðanna og eru þegar búnir að skipta um gjaldmiðil.