Kaffihúskeðjan Starbucks hagnaðist um 432,4 milljónir dala, jafnvirði 55,4 milljarða íslenskra króna, á síðasta ársfjórðungi nýliðins árs. Þetta er 13% meiri hagnaður en kaffihúskeðjan skilaði undir lok árs 2011. Tekjur námu 3,8 milljörðum dala á fjórðungnum og var það 11% aukning á milli ára. Uppgjör fyrirtækisins var birt í gær en í því kemur m.a. fram að veltan hafi verið góð í Bandaríkjunum og Kína.

Breska dagblaðið Guardian gerir uppgjörið að umfjöllunarefni sínu og tengir það við skattgreiðslur fyrirtækisins í Bretlandi. Þær námu aðeins 8,6 milljónum punda á síðastliðnum 14 árum. Það jafngildir á gengi dagsins 13,6 milljónum dala, jafnvirði rúmra 1,7 milljarða íslenskra króna. Deilt niður á árafjöldann nemur það 124 milljónum íslenskra króna á ári í 14 ár.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur ráðist harkalega á stjórnendur Starbucks í Bretlandi vegna málsins. Síðast gerði hann það í gær á ársfundi Alþjóðaefnahagsstofnunarinnar World Economic Forum sem staðið hefur yfir í vikunni í bænum Davos í Sviss. Þar sagði hann m.a. viðskiptavini fyrirtækisins vera fullsadda á viðskiptaháttum fyrirtækisins auk þess að boða átak gegn skattaundanskotum.

Blaðið segir Howard Schultz, forstjóra Starbucks, og aðra stjórnendur fyrirtækisins hafa komið sér undan því að svara gagnrýni Camerons á hendur fyrirtækisins og voru á uppgjörsfundi ekki spurðir út í skattamál fyrirtækisins.

Í Guardian er rifjað upp að í nóvember í fyrra hafi yfirmaður Starbucks í Evrópu vísað því á bug að fyrirtækið hafi komið sér undan því að greiða skatta. Bent er á að aðeins mánuði síðar, þ.e. fyrir mánuði, hafi stjórnendur Starbucks boðist til að greiða 10 milljónir punda aukalega í skatt á ári í tvö ár í breska ríkiskassann.